• Bone & Marrow

Íslenskt beinaseyði á leið í verslanir!


Bone & Marrow er fyrirtæki sem leitar í smiðju forfeðranna eftir æskilegri næringu fyrir nútímamanninn. Við í Bone & Marrow leggjum áherslu á fæðu sem er í senn einföld, hrein og laus við hvers kyns auka- og uppfyllingarefni. Við trúum því statt og stöðugt að slíkt fæði eigi erindi við nútímann. Til þess að fólk geti tekið góðar ákvarðanir, verið heilbrigt og hraust þarf það að fá heilnæmt fæði. Næringargildi og gæði forns fæðis er slíkt að það mætti með réttu kalla það ofurfæði.

Fólk er í síauknum mæli að færa sig frá helunnum matvörum og yfir í vörur sem eru heilsusamlegar, lífrænar og náttúrulegar. Nýjar tegundir matarræðis hafa sprottið upp síðustu árin þar sem lögð er áhersla á hreinleika, einfaldleika og á vörur sem hafa staðist tímans tönn. Þar má telja hópa eins þá sem aðhyllast Fornt fæði (e. ancestral nutrition) og Steinaldarfæði (e. Paleo). Þessir hópar horfa aftur í tímann, mislangt þó, og borða samkvæmt matarhefðum forfeðra sinna. Þeir eru farnir að nota aftur mat sem hefur ekki verið í tísku síðustu áratugina á Vesturlöndum, svo sem innmat, súrsað grænmeti, dýrafitur og beinaseyði.

B&M hefur síðustu mánuði verið að þróa íslenskt beinaseyði (e. bone broth) en beinaseyði er vinsæl heilsudrykkur með langa sögu. Beinaseyðið er framleitt úr íslensku vatni, íslenskum dýrabeinum, grænmeti og kryddjurtum. Það er, eins og gefur að skilja, á fljótandi formi og hægt er að drekka það eitt og sér eða nota það sem grunn fyrir aðra rétti, t.d. í súpur, sósur eða sem grunn í uppáhaldsrétti hvers og eins. Beinaseyði inniheldur kollagenprótein, er snefilefnaríkt og hefur lágt hitaeiningainnihald. Fyrsta tegundin sem B&M setur á markað er lambabeinaseyði í 500 ml glerkrukkum og eru rúmlega tveir neysluskammtar í krukkunni. Það inniheldur eftirfarandi hráfefni: íslenskt vatn, íslensk lambabein, paprika, gulrætur, laukur, rauðlaukur, blóðberg, majoram, hvítlaukur, eplaedik, sjávarsalt og svartur pipar. Fleiri vörur munu svo fylgja í kjölfarið en meira um það síðar.